Litlir fætur marka djúp spor

Þegar foreldrar missa barn á meðgöngu eða fljótlega eftir fæðingu er mikilvægt að varðveita minningar um barnið og búa til fallega umgjörð í kringum missinn. Minningarkassarnir frá Gleym mér ei hjálpa fjölskyldum að halda á lofti minningunni um litla ljósið.
Í kössunum eru tveir kanínubangsar. Önnur kanínan fer heim með fjölskyldunni á meðan hin fylgir barninu. Kanínurnar verða þannig dýrmæt tenging á milli fjölskyldunnar og barnsins sem ekki fékk að dvelja hjá þeim.
Á hverju ári gefur Gleym mér ei 80-90 minningarkassa. Auk tveggja kanína innihalda þeir meðal annars armbönd frá Aurum, kertastjaka, box fyrir hárlokk, leirmót fyrir litlar hendur og fætur og fræðsluefni fyrir foreldra og ástvini.*

Frásagnir frá fjölskyldum

„Við misstum annan tvíburann okkar á meðgöngu og þykir mjög vænt um að ein kanína fylgi hvoru barni.“

– Halldóra og Ingvar

„Ég var mikið með hana í fanginu og hálsakoti fyrstu dagana, leið smá eins og ég væri með litlu stelpuna mína þá og væri að passa hana og vernda.“

– Helena

„Sonur okkar fer ekkert án kanínunnar og sefur með hana allar nætur. Kanínan minnir okkur á Ylfu Dís og veitir okkur hlýju í hjartanu að hafa hana alltaf með okkur.“

– Guðrún Hildur og Björgvin Fjeldsted

„Önnur kanínan passar upp á Birtu okkar í kirkjugarðinum og hin er heima þar sem við getum knúsað, kysst og talað við hana.“

– Valla og Böddi

„Það er gott fyrir son okkar að hafa haldbæra og sjónræna minningu um tvíburabróður sinn, sem hann getur tekið utan um og fundið fyrir þegar hann þarf á að halda.“

– Ingibjörg Freyja

Gefðu kanínu og hjálpaðu syrgjandi fjölskyldum að varðveita minninguna um litla ljósið sitt
Söfnun litlir fætur
*Innihald kassans getur breyst. Gleym mér ei er í nánum samskiptum við ljósmæður og starfsfólk LSH varðandi þarfir foreldranna sem geta verið breytilegar.